15.4.15

bloggmúrinn rifinn


Jæja Alexandra Sif Nikulásdóttir !!

Það er það langt frá seinustu færslu að ég átti í erfiðleikum með að muna lykilorðið til þess að logga mig hér inn á elsku bleiku síðuna mína. Ég skammast mín fyrir að hafa lofað gull og grænum skógum í seinustu færslu og svo ekki ritað stakt orð í mánuð. Það er að sjálfsögðu ástæða fyrir því að ég leyfði slíku að aðhafast, í framhaldinu varð alltaf erfiðara að setjast niður og ganga í þessi mál. Seinustu dagar hafa farið í það að hvetja mig til þess að leysa þetta í eitt skipti fyrir öll 
með bloggfærslu eins og mér einni er lagið.
Ég finn það á mér að þessi verður í lengra lagi.... þegar ég byrja er no turning back.


Það eru ófá ævintýrin sem ég hef lent í síðan þá sem eru fyrst og fremst ástæðan fyrir bloggleysi mínu, en að sama sinni finnst mér ég vera með svo margt í gangi:
(
Ale Sif á Facebook, Instagram, allt sem tengist Betri Árangri og Ræktardurgurinn í DV
Þess vegna sé kannski ekki ennþá nægilegur grundvöllur fyrir blogginu samhliða því?
 Ég vil líka ekki að fólk fái alveg nóg af mér með öllu sem ég geri, hinn gullni meðalvegur sjáið til. Það er því smá togstreita hjá sjálfri mér enn hvað það varðar, líkt og ég lýsti í færslunni minni áður 
HÉR.

Stærsta ævintýrið, rússíbaninn og adrenalínkikkið af þessu öllu er það að ég náði stærsta markmiðinu sem ég setti mér fyrir á árinu.

(tekið úr færslunni sem ég ritaði í upphafi ársins)

1. KAUPA MÉR ÍBÚÐ
Þetta er alveg efst á mínum lista í lífinu og set ég stefnuna á að tækla þetta mikla og stóra verkefni fyrir lok ársins 2015. Eftir að ég flutti aftur í foreldrahús eftir sambandsslit hef ég lifað in the comfort zone en núna er tími til að þroskast og ég þarf líka mitt eigið eldhús fyrir elsku KitchenAidið mitt.

Eins mögnuð og þessi lífsreynsla hefur verið, þá var aðdragandinn og óvissan mjög stressandi. Ég var alveg að fara á límingunum á meðan þetta mikla og stóra ferli gekk sinn gang og var tilfinningin að vita að allt væri í höfn ólýsanleg.. hef sjaldan upplifað eins mikla geðshræringu. Sagan á bakvið þetta allt saman væri gott efni í eina færslu, enda hálfgert ævintýri með smá touch af The Secret.

Ég er allavega virkilega spennt og kannski smá stressuð fyrir því að takast á við það mikla og stóra verkefni að vera íbúðareigandi og eiga mitt eigið heimili fyrir mig og Kitchenaid vélina mína. Næsta markmið er klárlega að kaupa almennilegt heilsurúm og húsgögn, ásamt því að VÍGJA blessuðu bleiku hrærivélina. Er meira segja búin að ákveða að það fyrsta sem ég mun baka er eitt stykki gamaldags skúffukaka með ofur gúrmuðu smjörkremi og kókos ofan á.. gerist ekki mikið heimilislegra en það.


Ein aðeins of glöð fyrir lífið með kaupsaminingnn 

Annað stærra ævintýrið er það að ég keppti núna síðastliðna páska á Íslandsmótinu í fitness í bikiniflokki. Mér finnst ótrúlega gaman og gefandi að hafa það sem markmið fyrir sjálfa mig að keppa, bæði til þess að vinna að bætingum með líkamlegt form og svo er upplifunin sem fylgir því að stíga upp á svið alveg hreint mögnuð.
Ég hef það að sama sinni sem mitt markmið að vera í góðu formi allan ársins hring og vinna stöðugt að bætingum. Það gerir það að verkum að undirbúningstíminn minn er ekki langur og litlar breytingar sem ég þarf að gera á mínum lífsstíl.


Ég viðurkenni fúslega að ég er ekki sú duglegasta að pósta inn í kringum mót og er það eiginlega með vilja gert. Ég set svo mikla pressu á mig sjálf að mér finnst best að eiga það bara við sjálfa mig og getað bakkað út ef að ég væri ekki nægilega sátt með heildarútkomuna. Þess vegna eru aldrei neinir slíkir póstar á Instagram eða Facebook fyrr
 en eftir mót.. það er líka svo gaman að geta komið á óvart.

Upplifunin á þessu móti var ótrúlega skemmtileg og öðruvísi en seinustu mót þar sem ein af mínum bestu vinkonum, Auður, var líka að keppa. Við gerðum allt saman seinustu dagana og vorum eins og samlokur. Við erum svo heppnar að vera þeim hæfileikum gæddar að vera förðunarfræðingur og hárgreiðslukona þannig við skiptumst á að gera hvor aðra fína. Þetta gerðum við einu sinni áður í módelfitnessflokki árið 2011 og því fjögur ár frá því móti... gaman að sjá breytinguna á okkur síðan þá.


Elsku Auður þú gerðir daginn svo ótrúlega skemmtilegan og undribúningin sömuleiðis. Er ekkert smá stolt af þér, enda ein sú duglegasta sem ég þekki <3

Undirrituð lenti í 4.sæti í módelfitnessflokki + 171 cm eða tröllaflokknum eins og ég kalla hann jafnan. Að sjálfsögðu hefði mig langað lengra, en ég hef það alltaf frammi fyrir mér að ég er fyrst og fremst að keppast við sjálfa mig og því stærsti sigurinn að geta bætt mig frá seinasta móti.. þá var ég of skorin en mætti núna aðeins mýkri, fylltari og bombulegri ásamt ummálsbætingum á skottinu.
Tala nú ekki um að hafa náð þessu formi eftir erfið veikindi á seinasta ári og á sterkum húðlyfjum sem fylgja ýmsar leiðinlegar aukaverkanir.
Ég veit samt að ég get gert betur og mun stefna að slíkum bætingum hægt og rólega samhliða þessum holla og góða lífsstíl sem ég elska.

Ég gæti náttúrlega ALDREI gert þetta án minna nánustu sem styðja mig og hvetja mig áfram í öllu sem ég tek mér fyrir hendur.. fjölskylda og bestu vinkonur. Það er ómetanlegt að hafa það á bakinu í svona undirbúningi og lífinu sjálfu. Ég tel mig virkilega heppna og er ævinlega þakklát að hafa svona gott fólk í kringum mig.
 TAKK svo mikið frá mínu hjarta
<3

Katrín Eva.. hvar væri ég án þín??
Þú veist ég dýrka þig og dái til tungslins og til baka.. takk fyrir mig COACH
<3

Tvær af mínum bestu vinkonum eru svo hárgreiðslu og snyrtifræðingsgúru og sáu um að ég liti sómasamlega út á sviðinu. Takk elsku Rósa og Auður.
Rósa er snyrifræðingur á
Blue Lagoon Spa og Auður hárgreiðslukona á 101 Hárhönnun.

Perform.is fyrir að hafa haft trú á mér frá því ég byrjaði. Sannur heiður að fá að vera hluti af teyminu ykkar og andlit fyrir búðina.


Einnig langar mig að þakka honum
Gumma á Kírópraktorstofu Íslands fyrir að hafa séð svona vel um mig fyrir mót, þar sem að lyfin sem ég er á þurrka upp liðina og ég því extra viðvkæm. Einnig kenndi hann mér teygjur og æfingar til þess að bæta líkamstöðuna og ná betri tengingu inn á kviðinn, sem skilaði mér virkilega góðum bætingum og er komið í daglegu rútínuna framvegis.

AÐ LOKUM... Þá færi ég þakkir til ykkar sem lesið bloggið mitt og eruð að fylgjast með mér á öðrum miðlum. Öll likes og falleg orð í póstum og kommentum á facebook eftir mótið eru ómetanleg og hvetja mig áfram
<3

Ég er aðeins að fara fram úr mér hvað lengd varðar og læt þetta því gott heita í bili. Mér finnst bara svo mikilvægt að þakka fyrir mig, því ég væri engan vegin búin að ná hingað ef það væri ekki fyrir það að ég hef svona góða að.

Ég ætla ekki að lofa neinu upp í ermina á mér hvað bloggfærslur varðar, en ég finn eftir þessa færslu að ég saknaði þess að skrifa hérna. Annars minni ég á að ég er dugleg að setja inn á Facebookið, Instagram og Ræktardurgurinn er fastur liður í Vikublaði DV á þriðjudögum.

Þangað til næst
LOVE ALE
<3

1 ummæli: