25.3.18

Updeit


Góðan og blessaðan..

Ég viðurkenni að hér hefur ríkt svokölluð blogglægð seinasta mánuðinn. Eini samfélaagsmiðillinn sem ég hef verið eitthvað virk af ráði er Snapchat en ég ákvað reyndar líka að taka mér viku pásu frá því um daginn í viku.

Það var mjög áhugaverð vika þar sem ég hef í raun aldrei tekið mér svo langt frí frá þeim miðli. Ég fann hinsvegar að það var nauðsynlegt fyrir mig þar sem ég er stundum svolítið tvísýn í þessum samfélagsmiðlaheimi og einnig langaði mig að prufa að vera með símann minna á lofti.
Ég hef það samt alltaf hugfast að bera virðingu fyrir fólkinu í kringum mig og set ekki allan daginn minn inn á Snapchatið og þar af leiðandi ekki alltaf með símann á lofti - maður hefur alltaf val um hvað fer þar inn.

En ég vel það vissulega sjálf að vera með opið Snapchat. Ástæðan fyrir því að ég rækta bloggið mitt og aðra samfélagsmiðla er af því að ég hef gaman af því og mér finnst enn skemmtilegra að geta gefið af mér, þá uppskriftir, þekkingu tengda hollum og góðum lífsstíl, förðun og svo framvegis. Inn á milli ratar svo einhver vitleysa frá mér og mínum húmor en mér finnst mikilvægt að taka lífinu ekki of alvaralega, þó svo að ég geti alveg verið mjög alvaraleg líka.

En já ég sem sagt fór í smá lægð samhliða þessu og stundum langar mig til að blogga en maður tímir einhvern vegin að opna tölvuna á kvöldin þegar maður hefur verið að vinna í tölvunni allan daginn. Ég hef yfirleitt græjað bloggin um helgar en það hefur verið nóg að gera.
Að mestu leyti bara þetta daglega líf, æfa, sofa vinna og reyndar fór ég á mjög skemmtilegar kynningar hjá YSL og Sensai í liðnum mánuði, tók þátt í öðru hlaupi ársins og var "mamma" litla frænda míns í fimm daga svo að eitthvað sé nefnt.

Annars er fullt spennandi framundan og andinn og peppið er að hellast yfir mig.
Í byrjun apríl eru náttúrlega páskarnir en helgina eftir það er ég á leiðinni til London með vinkonu minni á förðunarnámskeið sem við erum að rifna úr spenning yfir. Við erum sem sagt á leiðinni á Masterclass með Mario sem er einn af förðunarfræðingunum hennar Kim Kardashian og ég er búin að fylgjast með honum síðan ég byrjaði að vinna í Make Up Store fyrir 10 árum (jesús hvað tíminn flýgur). Í för verða einnig maðurinn hennar og Arnar þannig það verður notið í botn þessa helgi.


Svo er stefnt að afhendingu á íbúðinni í apríl og er ég virkilega spennt fyrir því að koma okkur fyrir og gera þetta að okkar. Við nýttum einmitt þessa helgi til þess að byrja að spá í húsgögnum en ég er alveg komin með langan lista yfir hluti sem eru á draumalistanum fyrir heimilið. Við munum svo koma okkur fyrir hægt og rólega.
Einnig er ég byrjuð að skipuleggja sumarið og annað skemmtilegt sem ég hlakka til að deila með ykkur.

Ale Sif

0 ummæli:

Skrifa ummæli