10.6.15

Líf mitt á Decutan


Ég talaði um það í færslu hér að neðan að mig langaði til þess að skrifa um lyf sem ég er á, þar sem það er ekkert lamb að leika sér við og fáar reynslusögur að finna um það á netinu. Samt sem áður hefur nánast önnur hvor manneskja sem ég tala við farið á þetta tiltekna lyf. Lyfinu er ég á vegna þess að ég hef í gegnum mín unglingsár verið með svokallaða sýkingu í húð (Acne) og farið á sýklalyf vegna þess í tvígang. Sú meðferð er aðeins vægari og ekki eins átakanlegt ferli og lyfið sem ég er á núna.
Nú fæ ég oft þá ábendingu að það sé nú ekkert að húðinni minni, sem er reyndar ekki rétt og fer ég nánar í það fyrir neðan. Þetta lyf er mín seinasta lausn til að vinna á þessum leiðinlega vanda sem hefur haft mikil áhrif á andlegu og sálrænu hliðina.

Svo að fólk viti nú hvert ég er að fara, áður en ég dembi mér í einhverja tilfinningalangloku. Finnst mér nauðsynlegt að taka fram hvað Acne er og hvernig meðferðin við slíkri sýkingu fer fram.

ACNE VULGARIS - ÞRYMLABÓLUR
Við fáum flest öll bólur á okkar unglingsárum, þar sem að hórmonarnir eru upp og niður og miklar breytingar eiga sér stað í líkamanum. Þetta ferli gengur samt yfirleitt yfir og losna flestir við þessar bólur að unglingsárum liðnum.
En svo eru margir sem eru með aukna fituframleiðslu í húð sem gerir það að verkum að fitukirtlarnir í húðinni stíflast og í stífluna safnast húðbakteríur sem valda bólgum, blöðrum og/eða graftarbólum. Þessu fylgja mikil óþægindi og oftar en ekki verður öramyndun í húðinni. Það er mjög mismunandi hvernig þetta leggst á hvern og einn og eru einkennin því ekki eins, né örin sem fylgja.

MEÐFERÐ VIÐ ACNE
Það eru nokkur meðferðarþrep til að vinna á sýkingunni og er yfirleitt byrjað á vægustu meðferðinni og unnið sig upp, það fer allt eftir því hversu slæmt tilfellið er.

Fyrsta meðferðin er útvortis og er krem borið á sýkta svæðið samhliða stifti í ákveðið tímabil, til þess að drepa sýkinguna. Stundum eru konur settar á sérstaka getnaðarvörn sem í flestum tilvikum minnkar myndum fílapensla.

Næstu skref ef þetta virkar ekki eru sýklalyfjaskammtur í nokkra mánuði samhliða kreminu til þess að vinna enn frekar á sýkingunni, innvortis og útvortis.


Seinasta meðferðin er einungis notuð ef það sem ég tel upp á undan virkar ekki, þar sem að sú meðferð er mjög kröftugt og því fylgja ýmsar aukaverkanir. Þá er tilvikið mjög slæmt og bólurnar mjög stórar og djúpt í húðinni. Lyfið sem ber heitið Decutan vinnur á fitukirtlunum, þannig að þeir rýrna talsvert á þeim tíma sem lyfið er tekið inn. Oft rýrna kirtlarnir það mikið að varanlegur bati næst.
Það er MJÖG MIKILVÆGT að viðkomandi kynni sér lyfið almennilega áður en á það er farið, það er svo mikið sem getur haft áhrif á virkni þess og einnig verið slæmt fyrir líkamann.


Ýmsar upplýsingar um Decutan og meðferð þess:
* Nauðsynlegt er að fara í blóðprufu á sirka 4-6 vikna fresti á meðan meðferð stendur. Það er gert til þess að athuga hvernig starfsemi líkamans er. Þar eru nokkrir þættir mældir eins og t.d. blóðfita, lifragildin og er einnig gerð óléttuprufa fyrir konur þar sem að það er stranglega bannað að vera óléttur á meðan meðferðinni stendur. Lyfið getur valdið fósturskaða.
* Eftir hverja blóprufu er læknisheimsókn og næsti skammtur ákvarðaður út frá blóðprufunni.
Það er stranglega bannað drekka áfengi ofan í lyfið, það hefur áhrif á lifrastarfsemina og getur dregið úr virkni lyfsins.
Best er að forðast sólarljós í miklu magni og nota ávallt sólarvörn.
Mikilvægt er að bera rakakrem og varasalva reglulega yfir daginn.
Það er bannað að fara í snyrtingu eins og t.d. vax og slíkar meðferðir. Húðin er svo þunn að hún getur flagnað af og viðkomandi fengið sár sem í framhaldinu mynda ör.
Bólgur geta myndast í augum út af þurrki og orsakar lyfið einnig næturblindu.
Ekki er ráðlagt að taka inn lyfið ef viðkomandi hefur verið greindur með geðsjúkdóma eins og t.d. þunglyndi.
Lyfið getur aukið liðverki og orsakað vöðvaþreytu og því mikilvægt að stunda ekki of mikla hreyfingu.
Forðast allt auka A-vítamín í fæðu og vítamínum.
Það tekur lyfið sirka 2-3 mánuði að vinna sig úr líkamanum eftir meðferð og því nauðsynlegt að vera meðvituð/aður um þá hluti sem nefndir eru fyrir ofan eftir á.

Nokkrar aukaverkanir:
-Húðþurrkur, erting í húð, kláði, brunatilfinning, húðin getur versnað fyrst hvað bólur varðar, þreyta, blóðleysi, liða og vöðvaverkir, augnþurrkur, bólgur í húð, núningssár, blóðnasir, sár í nefi og hálsi, höfuðverkur, húðin þynnist, þunglyndi, ofnæmisviðbrögð með bólgum í andliti og svona er áfram hægt að telja.

Hægt er að lesa fylgiseðilinn nánar HÉR.

MEÐFERÐ VIÐ ÖRUM
Við minni örum er hægt að fara í svokallað Peel, hún er framkvæmd útvortist. Þá er borið krem, gel eða vökva á húðina með sýrum sem leysir upp ysta lagið á húðinni og dregur þar af leiðandi úr kirtilopum húðarinnar. Við þetta flagnar sem sagt efsta lagið á húðinni og grær síðan til baka.

Ef örin eru mjög djúp, dugar slík meðferð ekki og er þá næsta skrefið að fara í laser meðferð sem vinnur hægt og örggulega á útistandandi og innföllnum örum.

MÍN SAGA

Nú þegar fólk sem ekki þekkir til þessa sjúkdóms eða sýkingar hefur lesið upplýsingarnar hér fyrir ofan er hægt að fara inn á aðeins dýpri mið. Því eins og ég tók fram hefur þetta haft gífurleg áhrif á sálina og andlegu hliðina. Ég vona að ég geti með þessum skrifum gert öðrum gott sem kljást við sama vanda.

......Ég gleymi því ekki þegar þetta blessaða partý byrjaði !


Ég var í kringum tvítugt og vann þá í Make Up Store, sem er mikil skvísuvinna og nauðsynlegt að vera með fallegt make up yfir daginn.
Ég hafði fengið bólur með miklum bólgum reglulega yfir unglingsárin, en aldrei spáð neitt sérstaklega í því. Á þessum tímapunkti var ég byrjuð að fá þannig trekk í trekk með það miklum bólgum að ég þurfti að fara að sofa með kaldan þvottapoka á svæðinu sem var bólgið. Til þess að toppa það var ég eins og ég væri nýbúin að hlaupa 10 km í maraþoni hvern einasta dag, það mikil var umfram fitumyndun í húðinni..

Ég þekkti smá til þessa sjúkdóms, en taldi mig ekki vera með hann af því ég var ekki með graftarbólur eða slíkt. Hinsvegar eftir að hafa keypt hvern einasta tóner fyrir feita húð í landinu og ábendingar frá vinkonu minni, lét ég þetta gott heita og fór til húðlæknis. Enda farið að setjast svolítið á sálina að vera alltaf eins og sveittur maraþon hlaupari í vinnunni og kúra kaldan þvottapoka á kvöldin.

Ég byrjaði á því að fara á kremin sem ég nefndi fyrir ofan. Þau gerðu ekki neitt fyrir mig, fyrr en ég fór á sýklalyfjakúr í hálft ár samhliða þeim. Árangurinn leyndi sér ekki þar sem að ég var LOKSINS laus við sveitta maraþonlúkkið og húðin allt önnur.

Eftir þetta var ég þokkalega góð, fékk kannski einu sinni og einu sinni bólu en ekkert til að tala um. Þangað til að ég fékk þær svo aftur í miklu mæli, sirka fjórum árum seinna. Ég áttaði mig strax á því að þarna væri sýkingin að dúkka aftur upp og pantaði því strax tíma hjá húðlækni. Hann staðfesti það og setti mig á sýklalyfjakúr sem stóð yfir í sirka 4-5 mánuði. Kúrinn virkaði mjög vel og ég varð laus við allar bólgur, en mjög meðvituð um ör sem höfðu myndast í kringum munnsvæðið vegna þessa, enda alltaf verst þar.
Ég tók því ákvörðun um að fara í Peel meðferð. Þá ákvörðun tók ég fyrir sjálfan mig og engan annan og sagði mjög fáum frá. Ég var mjög heppin að vinna bakvið tölvuskjá þar sem þessi meðferð var bara andleg átök fyrir sig. Ég lokaði mig inni í nokkra daga af því ég var eins og ég veit ekki hvað. Í dag hef ég reyndar húmor fyrir þessu og l
eyfi því mynd að fylgja sem ég hef einungis sýnt ÖRFÁUM manneskjum. Hún var tekin af mér sama dag og ég fór og lét bera á mig sýrurnar.


Eins og sjá má hefði ég getað fengið hlutverk í Family Guy án þess að þurfa að fara í gervi.. what a babe!
Svona var ég fyrst, svo fékk ég blöðrur sem í framhaldinu sprungu og hörðnuðu. Eftir það flagnaði húðin hægt og rólega af með tilheyrandi sárum sem tóku nokkrar vikur að gróa og þá var húðin mjög fín.

Eftir þetta hef ég bara verið nokkuð góð, þangað til í byrjun þessa árs. Ég byrjaði að bólgur í húðina á nýjan leik. Sú versta kom í janúar og fór ekki fyrr en í mars og ég fékk meira segja marblett við að fikta í einni bólgunni. Ég var svolítið treg að panta mér tíma hjá húðlækni enn eina ferðina, þar sem ég nennti ekki að endurtaka þetta í þriðja sinn. En þar sem að bólgurnar létu mér líða illa, bæði að innan sem og utan, pantaði ég mér tíma hjá húðlækni. Hann staðfesti að sýkingin væri að banka upp að dyrum á nýjan leik. Hann gaf mér tvo valkosti.. annaðhvort að fara á sýklalyf eða taka þetta alla leið og fara á Decutan, sem væri að gefa meiri árangur og það eina sem ég hafði enn ekki prufað.


Ég hef ekki mikið tekið myndir af mér þegar svona kýli koma fram en ég fann þessa í símanum, frá því fyrr á árinu. Það myndast sem sagt mikil bólga í húðinni og stundum sár. Bólgan leiðir út frá sér og oftar en ekki er hjartsláttur í bólgunni. Stundum liggja fleiri en eitt svona kýli saman.
Oftast nær er ekkert mál að fela þetta með farða og nota ég gjarnan hyljara frá Make Up Store til þess, sem er uppáhalds hyljarinn minn.
Guli og ljósi liturinn eru til að draga úr roða í húðinni, en rauði og ljósi undir augu til að draga úr bláma.

Ég var eitthvern vegin ekki tilbúin að leggja þá vinnu á mig sem því fylgir að vera á Decutan, vegna aukverkana. Ég valdi því frekar sýklalyfin og fékk talsvert sterkan skammt af þeim, sá skammtur átti að taka mestu bólgurnar á þremur vikum. Þegar ég kom heim með lyfin í kassanum fór ég að velta þessu enn frekar fyrir mér.. af hverju ég kláraði þetta ekki í eitt skipti fyrir allt??
 Ég hugsaði um allt sem ég hef afrekað í gegnum tíðina.. brútal bulk, hvert köttið á fætur öðrum og svona get ég áfram talið. Ef ég gat það ætti ég nú að ráða við átta mánuði á þessu lyfi.

Ég ræddi við Öddu vinkonu mína sem hafði farið á þessi lyf tvisvar sinnum áður og því gott sem pro hvað þau varðar. Ég er henni ævinlega þakklát fyrir það spjall, þar sem að ég var komin með einstaklega góðar upplýsingar um lyfið og hvað ég gæti gert til að draga úr mestu aukaverkunum. Tala nú ekki um virkilega gott pepp til að tækla þetta. Svo var hún svo ljúf að leyfa mér að leita til sín ef það væri eitthvað. Ég ræddi við fleiri sem höfðu verið á Decutan og það sögðu allir að þetta væri þess virði á endanum.
Ég pantaði því strax nýjan tíma hjá húðlækninum mínum sem var talsverður tími í, þannig ég kláraði sýklalyfjaskammtinn áður en að tímanum kom og varð árangurinn enginn.


BYRJUÐ Á DECUTAN

Þann 12. febrúar byrjaði ég því á Decutan og var ég búin að preppa mig vel upp í komandi átök, með varasalva eða réttar sagt geirvörtu krem, andlitskrem og augndropa að vopni. Enda eitt af helstu aukaverkunum að finna fyrir þurrk í öllum líkamanum. Húðlæknirinn minn ráðlagði mér til dæmis að bera gerivörtukremið á varirnar um það bil 20 x á dag, til að koma í veg fyrir að þær færu illa.Staðalbúnaðurinn minn sem ég er ávallt með á mér, andlitskrem, augndropar og gerivörtukremið góða sem ég á þrjár túpur af í sitthvorri töskunni (eins gott að vera vel undirbúin).

Þegar ég var nýbyrjuð á lyfinu lásum ég og mamma yfir aukaverkanirnar og gátum ekki annað en hlegið því þær voru svo svæsnar, en það stoppaði mig ekki í að keyra þetta í gang og tækla þetta með jákvæðu hugarfari. Sem fékk mig líka til að hugsa til Hilmu vinkonu minnar sem er mér mikil fyrirmynd hvað svona andleg og líkamleg átök varðar. Þvílíkur dugnaðarforkur sem heldur áfram eðlilegu lífi þrátt fyrir að vera greind með MS sjúkdóminn. Það hvatti mig meðal annars til að taka viðtal við hana í Ræktardurgnum, sem lesa má HÉR.

Ég held að engin tími sé réttur tími til þess að byrja á svona sterku lyfi, en veðurfarð hefur mjög mikið að segja varðandi ástand húðarinnar og ég byrjaði á kaldasta tíma veturs. Ég fann ekki fyrir aukaverkunum strax en þegar á leið ,beit kuldinn mig svo sannarlega í andlitið. Það mikið að ég kaus að vera ómáluð fyrsta mánuðinn og bera frekar á mig krem yfir daginn. Suma morgna átti ég erfitt með að fara út í kuldann. Einn daginn ákvað ég að prufa að mála mig og keypti sérstaklega hreinsimjólk fyrir mjög þurra húð til þess að þrífa hana um kvöldið... ég fékk andlegt áfall og skrækti við að líta í spegil eftir það. Ég var eins og ég hafi legið í sólbaði með enga sólarvörn í heilan dag og það var mikill hjartsláttur í húðinni. Ég fór því á stjá og fann hreinsivökva sem hefur hentað vel fyrr mig meðan á meðferðinni stendur.Þessi gerir mér kleift að mála mig svona þegar ég er í fíling án þess að enda eins og brunarúst eftir þvottinn.

JÁKVÆTT HUGARFAR MIKILVÆGT


Fyrst um sinn voru aukaverkanirnar ekki svo miklar en þegar á leið hafa þær aukist. Ég tel samt sem áður að hugarfarið skiptir gífurlega miklu máli til þess að tækla ferli sem þetta. Og mikilvægt að horfa á það með jákvæðum augum, þar sem ávinningurinn verður mikill á endanum og vel þess virði.

Ég viðurkenni alveg að ég hef átt mín tímabil og dottið niður og átt erfitt með að rífa mig upp aftur. Ég náði t.d. að keppa núna um páskana, sem ég gerði eingöngu fyrir sjálfa mig til að hafa gaman af og njóta, brjóta upp hversdagsleikan. En eftir flutningana varð ég mjög slæm í líkamanum og var því mikið frá æfingum. Ég finn talsverðan mun í dag eftir að hafa komið reglu á æfingarnar á nýjan leik, en þannig held ég líkamanum við. Svo hefur hann Gummi hjá Kírópraktorstofu Íslands hjálpað mér mjög mikið.


Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að koma orðum að þessu það er svo ýmislegt sem ég get tjáð mig um hvað þetta varðar og eins og ég segi erfitt að vera jákvæður. Mér líður stundum eins og ég sé í líkama sem ég á ekki því ég var eins og gömul kona eftir flutningana og illt alla daga í liðunum, það gerði mér erfitt fyrir æfingum sem eru MJÖG stór hluti af mér. Mér fannst það ótrúlega erfitt og það kom mér alveg úr öllum æfingargír, frekar langaði mig til þess að sitja heima og fá mér Honey Nut Cheerios.
Svo eru dagar sem ég er líka bara virkilega neikvæð og vorkenni sjálfri mér, sem er ótrúlega ólíkt mér, ég er með blóðnasir annan hvorn dag, sár á höndunum eins og ég hafi lent í hörkuslag í bænum um helgina, varaþurrkurinn það mikill að ég er með sár í munnvikjunum og lít út eins og Jokerinn, augun og andlitið bólgið, brakar í öllum liðum, þreyttari en vanalega og svona get ég haldið áfram að telja.Okei kannski aðeins of dramatísk lýsing haha..

Eins og ég segi er mikilvægt að horfa á þetta með jákvæðu hugarfari, það hefur víst gleymst svolítið hjá mér á miðri leið. En hingað og ekki lengra... um leið og ég hóf skrif á þessari færslu ákvað ég að gefa sjálfri mér stórt spark í rassinn til að tækla restina af þessu verkefni. Enda gaman að segja frá því að á sunnudaginn er ég hálfnuð, búin með fjóra mánuði og á því einungis fjóra eftir. Ég setti niðurtalningu í dagbókina mína til að hvetja mig áfram að settu marki. Það sem ég mun vera glöð þann 12.október að KLÁRA þessa meðferð, sem vonandi gerir það að verkum að ég verð góð til frambúðar.

Þrátt fyrir að bólgur og roði í húðinni séu að hrjá mig flesta daga, er munurinn á húðinni í andlitinu gígantískur og það einmitt ætlunin.
Leyfi einni mynd að fylgja með frá því í morgun :)

Vonandi nýtist þetta einhverjum til góðs.
Ykkar OFUR EINLÆG
LOVE ALE <3

24 ummæli:

 1. Duglegust <3

  SvaraEyða
 2. Feel your pain.
  Lenti í því 28 ára gömul að fá þvílíku bóluhúðina eftir að hafa aldrei fengið bólu um ævina. Húðsjúkdómalæknar sögðu eina ráðið vera að fara á þetta lyf Decutan. M.v. aukaverkanirnar þá var ég skíthrædd við þetta lyf og hafði heyrt slæmar sögur. Man nú ekki hvernig það atvikaðist, hvort ég var bara á fullu á netinu að leita mér upplýsinga en allavega endaði það þannig að kvensjúkdómalæknirinn minn ávísaði mér pillunni Diane Mite sem snarbreytti húðinni á mér.
  Getur lesið um hana hér:
  http://www.lyfjabokin.is/Lyf/Dianemite/
  kveðja, Kristín ( sem bara les bloggið þitt )

  SvaraEyða
  Svör
  1. hæhæ Kristín og takk fyrir að deila þessu með mér og öðrum. Hef einmitt heyrt um þessa pillu og ráðlagði læknirinn minn mér að fara á hana eftir að ég klára þennan ljúfa skammt minn. Hún vrirkar víst fínt fyrir marga sem er náttúrlega bara frábært :)
   Gangi þér ótrúlega vel og takk fyrir að fylgjast með
   LOVE ALE <3

   Eyða
  2. Ég hef sðmu sögu að segja, var búin með allt, kremin, sýklalyf í marga mánuði og fór þá á Diane mite og húðin gjörbreyttist. Ekki fundið bólu aíðan! Greindist líka með Pcos sem var eflaust orsök fyrir húðástandinu. Mæli með diane mite þegar um bólur er að ræða.

   Eyða
 3. Sæl Alexandra, gott að fá að lesa! þú ert sko ekki ein! Langar samt svo að vita, hvenær er góður tími að byrja á kúrnum, ég sit hérna á kassa af decutan.. og er akkúrat núna ekki upp á mitt besta, langar þess vegna bara að skella þessu í mig. Ég fór á þetta þegar ég var mjög ung en hætti vegna aukaverkana s.s þurrks og þunglyndis og hef ekki þorað að byrjað... en langar þar..en heyrði að það væri slæmt útaf sólinni. (ehmm eða hvaða sól?) á maður að byrja á veturnar eða skiptir það engu máli?

  SvaraEyða
  Svör
  1. Hæhæ og takk fyrir kommentið :)
   Það er aldrei neinn réttur tími.. á sumrin er það sólin og á verturnar er það kuldinn. Ef þú ert tilbúin að takast á við þetta verkefni, þá hugsa ég betra fyrr en seinna.

   Gangi þér OFUR vel.. knús :*

   Eyða
 4. Ég er á þessu lyfi líka og hef verið að setja á mig brúnkukrem og þetta lyf gerir það að verkum að liturinn dreifist ekki jafnt á líkamann þannig að ég verð alveg svakalega flekkótt. Hvað gerðir þú þegar þú varst að keppa og þurftir að vera með brúnkukrem? Er líka að fara að keppa og langar ekki að vera flekkótt :/ Sá að þú varst ekki neitt flekkótt og væri til í að vita töfralausnina þína ;)

  SvaraEyða
  Svör
  1. hæhæ
   Það er svosem engin töfralausn.. ég nota til að mynda Brasillian annan hvorn dag eða sirka 2 x í viku og er stundum flekkótt af því ég er mjög þurr. Svo eru aðrir dagar sem það rennur eins og silki.. haha :)
   Ég er samt mjög meðvituð og samviskusöm og set á mig body lotion kvölds og morgna og er dugleg að hugsa um hana. Það var samt talsvert erfiðara að koma brúnkunni á núna samanber þegar ég keppti án þess að vera á þessu lyfi.. en hafðist vel á endanum. Byggði brúnkuna upp í nokkra daga fyrir mót.

   Eyða
 5. Ég var búin að berjast við þetta í möööörg ár. Búin að prófa öll lyfseðilsskyld krem á markaðnum, og var á sýklalyfjum í ár - tvisvar sinnum. Komu alltaf aftur bara um leið og ég hætti á þeim. Og ég var sko ekki bara með eina og eina (Sem er sko alveg nógu vont samt). Það sást ekkert í húðina mína. Bóla-við-bólu.. viðbólu.. við bólu. Útum allt andlit. ALLTAF. Bakið mitt var þakið, andlitið, og upphandleggirnir. Þetta augljóslega settist mjög á sálina mina og ég var nánast hætt að fara út útaf þessu. Reyndi að mála mig sem allra minnst og aldrei þegar ég þurfti ekki að fara út til að halda húðinni alltaf hreinni. en ekki lokaðri undir meiki og púðri. Hefði getað skrifað heila mastersritgerð um bóluhúð. Anyways..
  Á endanum for ég á þetta lyf. Það het reyndar Roaccutan þá, en svo kom Decutan sem samheitalyf stuttu eftir að ég hætti á Roaccutan. Ég fékk allar aukaverkanirnar nema eina. Og það var hárlos.. fann ekki fyrir því. En ALLAR aðrar aukaverkanir. Og það er sko heil blaðsíða í bæklingnum. Ég varð TRYLLT í skapinu, fékk grátköst uppúr þurru og mjög þunglynd. Svo allar þessar þurrk aukaverkanir. Varaþurrkur from hell, var með auka rauða þykka rönd fyrir ofan og neðan varirnar. Setti augndropa mörgum sinnum á dag, bar meira að segja vaselín upp í nefið á mér, þar sem slímhúðin þar var sprungin og þurr.
  Gat ekki keyrt bíl nema í nokkrar mínútur í einu, því að ég fékk svo ofsalega verki í liðina. Gat stundum varla labbað..
  Þetta lyf er ÓGEÐ. Algjört ógeð!
  ..en algjörlega þess virði, fyrst ég lifði það af. (Sem var nú smá tæpt á tímabili).
  Ég fór í kristals húðslípun fyrir einhverja hundraðþúsundkalla eftir lyfið og í dag fæ ég ekki bólu (nema kanski eina og eina ósköp venjulega bólu - 1x á ári) Og sést ekki á mér að ég hafi verið svona svakaleg.

  Bara að deila minni reynslu líka, ef það er einhver þarna úti sem heldur að hann/hún sé einn í heiminum :)

  SvaraEyða
  Svör
  1. hæhæ þessi mynd sem fylgir er einmitt eftir að ég fór á lyfið núna. Þá var ég bara að fá eina og eina en á sínum tíma var ég með slatta af kýlum og oft var partý á einum stað. Slapp samt alveg þokkalega vel, fyrir utan hrikalegar bólgur í húðinni.
   Ég kannast alveg við nokkrar af þessum aukaverkunum, enda stundum sem ég spyr mig sjálf hver þessi manneskja sé eiginlega.. en það sem heldur mér gangandi er að ég veit að þetta mun gera betur á endanum. Er ótrúlega glöð að fleiri deili sinni reynslu.. þetta er eitthvað sem á ekki að vera feimnismál. Ég er einmitt orðin aum í hálsinum og stundum hás.. enenen hálfnuð ! vúhú

   Svo gott að það eru fleiri í sama pakka <3

   Eyða
 6. Sæl Alexandra
  Ég hef farið 2x á þennan kúr fyrir nokkrum árum síðan og eftir kúrana þá hef ég ekki fengið lit á húðin, ég hef búið á spáni og í texas og ég er alltaf jafn hvít. Hefur þú eitthvað heyrt um þetta að maður á erfitt með að taka lit eftir að hafa verið á kúrnum?

  SvaraEyða
  Svör
  1. hæhæ ég hef ekki heyrt það en oft hugsað út í þetta. Myndi endilega tékka á þessu nánar hjá sérfræðingi :)

   Eyða
 7. Hæhæ var svona að pæla hvenær næsta færsla kæmi bíð spennt ;)

  SvaraEyða
  Svör
  1. hæhæ ég skal ganga í það í vikunni, smá spennufall eftir að hafa þorað að smella þessari inn. Gaman að einhver fylgist með :D

   Eyða
  2. Æði hlakka til ;-)

   Eyða
 8. Nafnlaus9/9/15 21:49

  Hey má ég spyrja hversu langan tíma það tók fyrir þig að sjá árangur af lyfinu? Og hvenær þú varst orðin bólulaus? Annars vildi ég bara hrósa þér fyrir frábæra færslu! Gangi þér vel á lokasprettinum :D

  SvaraEyða
 9. hæhæ. væriru til í að skrifa aðra færslu núna þar sem þú ert að klára skammtinn :) Við erum alveg margar sem hefðum áhuga á að lesa, fá smá hvatningu svona í upphafi ferlisins...:)

  SvaraEyða
  Svör
  1. Ég skal gera það eftir að ég klára, myndi segja að seinustu tvær vikurnar séu frekar erfiðar eftir 8 mánuði á þessum elskum :)

   Eyða
 10. Svör
  1. Ég skal skrifa um það eftir að ég klára, myndi segja að seinustu tvær vikurnar séu frekar erfiðar eftir 8 mánuði á þessum elskum :)

   Eyða
 11. Sæl Alexandra! hvað mælirðu með að gera ef maður vill hreyfa sig á Decutan ? ég þarf að hreyfa mig..ég bara verð.. ;) og mig vantar ráð, er eitthvað gott að taka þegar maður er á decutan og vill æfa ? Töflur, duft..hvað sem er.. Ég er að drepast í fótum eftir smá stund að hjóla eða á brettinu svo já..þetta er viðbrigði..og ég er bara búin með mánuð á Decutan :-/

  SvaraEyða
 12. Hæ, má ég spyrja hjá hvaða húðlækni þú varst? Takk fyrir að vera svona skemmtilegur ræktardurgur ;)

  SvaraEyða
  Svör
  1. hæhæ og takk fyrir hrósið :D
   Ég var hjá Bolla núna seinast en hef verið annarstaðar áður.

   Eyða