5.2.18

Markmiðin mín í meistaramánuði 2018


Eins og ég hef áður komið inn á þá set ég mér alltaf markmið fyrir hvern mánuð ársins og Meistaramánuður engin undantekning. Mér finnst Meistaramánuður frábært framtak og sniðugt að hann hafi verið færður úr október í febrúar vegna þess að það eru ansi margir sem ætla að byrja árið með stæl í janúar, fara of geyst af stað og detta svo úr lestinni í febrúar. Núna tekur Meistaramánuður hinsvegar við í febrúar og hvetur fólk til þess að halda sér við efnið!

Markmiðin mín eru oft bara mjög lítil og mörg hver markmið sem ég set mér mánaðarlega einungis áminning til þess að vera dugleg eða bara panta tíma hjá lækni, þvo bílinn svo eitthvað sé nefnt.
Í Meistaramánuð í fyrra ákvað ég þó að setja mér nokkuð stór og ný markmið eins og t.d. að kaupa mér hjól og sleppa því að kaupa mér bland í poka í hnetubarnum. Það stóð ég svo sannarlega við og hef meira segja farið sjaldnar á hnetubarinn eftir það haha.


Í byrjun ársins setti ég mér eitt markmið sem ég skrifaði bæði fyrir janúar og febrúar en það var að við Arnar myndum finna okkur heimili saman. Það er mjög gaman að segja frá því að seinasta föstudag, sem sagt 2.febrúar skrifuðum við Arnar undir kaupsamning á okkar fyrstu eign saman. Ég get ekki lýst spennunni fyrir því að koma okkur fyrir. Þetta verður svo allt önnur upplifun en þegar ég keypti mér ein og ég fékk að ráða öllu.

Íbúðin er í nýbyggingu í Urriðaholtinu í Garðabænum og við því fyrstu eigendurnir. Ég þarf aðeins að slaka á spennunni þar sem við flytjum ekki inn fyrr en í apríl en ég mun ef til vill deila einhverju með ykkur þegar að því kemur.En hér koma markmiðin mín í meistaramánuði!

*SPARA og ég ætla ekki að nota VISA kortið mitt
*Göngutúr eða útihlaup 1 x í viku lágmark
*Ég ætla að ná 85 kg í hnébeygju eftir stífar beygju æfingar í janúar
*Minnsta kosti eitt deitnight með Arnari
*Byrja að hugleiða húsgögn og annað á heimilið okkar
*Finna næsta hlaup til þess að taka þátt í (fór í Norðurljósahlaupið seinasta laugardag)
*Hafa það frammi fyrir mér að líða vel og njóta líka, duglegri að slaka á
*Vera jákvæð
*Dugleg að æfa, borða hollt og drekka vatn
*Spara - setti það tvisvar inn til þess að ítreka við sjálfa mig !! hehe
*Hafa mig oftar til á morgnana, dagarnir verða svo mikið betri 

Þetta eru markmiðin mín þennan mánuðinn og er ég spennt að tækla þau!
Smá pressa með þessi kíló í hnébeygjunni þar sem ég var ekki búin að hnébeygja grimmt í sirka tvö ár þangað til í jamúar.. en get, ætla, skal!!


Ale Sif

0 ummæli:

Skrifa ummæli