7.11.16

Líf mitt eftir Decutan


Fyrir um ári síðan kláraði ég lyfjameðferð af lyfi sem að heitir Decutan. Lyfið er til þess að vinna á sýkingu í húð eða Acne og er ekkert lamb að leika sér við. Ég þurfti að vera níu mánuði í þessari meðferð og var því mikill sigur þegar ég tók inn seinustu töfluna.
Ég 12.október 2015 alveg í skýjunum með að hafa þraukað níu mánuði á Decutan

Lyfinu fylgja miklar aukaverkanir og vildi ég þar af leiðandi kynna mér málið vel áður en ég tók ákvörðun um að hefja meðferðina. Mér til mikillar furðu var lítið um upplýsingar um það á netinu á íslensku nema fylgiseðillinn fyrir lyfið og engar reynslusögur. Ég var þó mjög heppin og þekkti nokkra sem höfðu verið á lyfinu áður og fékk góðar upplýsingar.
Mig langaði til þess að mínir nánustu myndu skilja hvað ég væri að ganga í gegnum og sömuleiðis langaði mig til þess að hjálpa öðrum í svipuðum aðstæðum. Þess vegna skrifaði ég færslu um líf mitt á Decutan sem lesa má HÉR. Þessi færsla er því beint framhald af henni.

Mér finnst ótrúlega magnað að enn þann dag í dag fæ ég fyrirspurnir frá einstaklingum sem eru að glíma við sömu vandamál og hafa lesið bloggið mitt. Mér þykir einnig mjög vænt um að það komið öðrum til góðs og að reynslan mín hjálpi öðrum. Málið er nefnilega að það að vera með bólur og bólgur í húðinni hefur ekki eingöngu áhrif á útlitið, heldur fyrst og fremst á sálina. 
Þegar maður fer svo á lyfið bætast aukaverkanir þess ofan á líðanin.

Ég hef lengi ætlað að skrifa um líf mitt eftir lyfin þar sem ég lofaði því og einnig því ég hef verið beðin um það. Ég hef oft hugleitt það en ekki fundist ég vera tilbúin til þess fyrr en fyrst núna. Ég vissi að færslan yrði frekar persónuleg og löng. É
g er alltaf frekar feimin við að opna mig fyrir öðrum, en stundum þarf maður bara að stíga út fyrir þægindarammann. Sérstaklega ef að reynslan mín getur nýst öðrum vel.

Mikilvægt að fylgja leiðbeiningum
Eins og ég sagði í fyrri færslunni þá var ég mjög samviskusöm og fylgdi leiðbeiningum lyfsins 100% meðan ég var á því og þrjá mánuði eftir. Lyfið er þrjá mánuði að vinna sig úr líkamanum.
Ég var líka mjög ánægð að hafa valið þann húðlæknir sem ég var með. Hann reiknaði skammtinn minn út eftir þyngd og sendi mig alltaf í blóðprufur á mánaðarfresti ásamt þess að hitta mig reglulega. Ég tel að það hafi gert það að verkum að meðferðin gekk sem skyldi. 
Ég hef heyrt að það séu ekki allir læknar með eins nákvæmnir og með eins mikið eftirlit.

Eina sem ég hefði mögulega mátt gera öðruvísi var að deila aukaverkunum sem ég fékk með lækninum mínum þegar hann spurði mig. Ég hugsaði bara alltaf til þess að þá þyrfti ég mögulega lengri tíma á lyfinu, en mig langaði bara til þess að klára þetta sem fyrst og harkaði því að mér því að ég vissi að þetta væri bara ákveðið tímabil.

Málið er samt að sumar aukaverkanirnar geta skaðað líkamann varanlega ef að það er ekki farið varlega og því hvet ég ykkur til þess að deila slíkum upplýsingum með lækninum ykkar.


Aukaverkanir
Það er töluvert af aukverkunum sem fylgja lyfinu sem er ástæðan fyrir því að ég var smeyk við að fara á það til að byrja með. En ég bendi á að það er mjög mismunandi hvernig aukaverkanir leggjast í hvern og einn og oft standa þær einungis yfir í skamman tíma.
Ég held að ég hafi verið einstaklega viðkvæm og fékk alveg góða summu af þeim aukaverkunum sem fylgja lyfinu. Blóðnasir, liðaverki, varaþurrkur, vöðvaþreytu, þurrk í húð, bólgur í húð, sýkingar í naglbeð, sveppasýkingu í húðina, augnþurrk, depurð og ég gæti alveg talið áfram.

Ég passaði mig samt að hlusta á líkamann og undir endan dróg ég til dæmis úr æfingum til þess að passa liðina. Ég vildi ekki skaða líkamann til frambúðar útaf eigin þrjósku.

Hætti að geta málað mig
Eftir að ég skrifaði seinustu færslu breyttist ýmislegt. Ég varð mjög viðkvæm í húðinni og þurrkurinn í augunum jókst. Þegar ég þreif af mér málninguna á kvöldin varð ég eins og eldhnöttur í framan og húðin logaði. Mér leið eins og þyrfti að hringja á slökkviliðið í hvert skipti sem ég þreif hana af. Þess vegna tók ég meðvitaða ákvörðun um að hætta að farða mig þar sem að mér fannst það ekki þess virði að líða svona.

Það var mikil áskorun fyrir mig og í rauninni kenndi það mér ýmislegt. Húðin var náttúrlega ekki í sínu besta standi á meðan meðferðinni stóð, mikill þurrkur og bólgur. Þess vegna notaði maður farðan til þess að draga úr þeim einkennum.
Dags daglega finnst mér ekkert mál að vera ómáluð og er oftar þannig heldur en með farða. En þegar maður er lítill í sér fyrir er það töluvert erfitt.

Þarna var ég bara nakin í framan, frekar óánægð með sjálfa mig og leit ekkert sérstaklega vel út að mínu mati sem dróg svolítið úr sjálfstraustinu þar sem útlitið spilar alltaf einhvern hluta þar.

Ég þurfti bara að gjöra svo vel að treysta á persónueikann minn og innri manneskju sem að mér finnst ótrúlega dýrmætt og kenndi mér að meta sjálfa mig á annan hátt. Það var eitt kvót sem mér fannst passa vel við aðstæður og setti ég það upp á vegg í förðunarherbergið heima hjá mér.Aukaverkanirnar dvínuðu töluvert strax fyrsta mánuðinn eftir að ég kláraði skammtinn. Þannig sirka mánuði eftir að ég kláraði voru komnir fimm mánuðir frá því ég farðaði mig seinast. Ég var samt í góðri æfingu þar sem ég starfa sem förðunarfræðingur og sankaði að mér ýmsu förðunardóti sem ég var spennt að prufa að meðferð lokinni.
Það var mjög tilfinningarík stund að geta málað sig aftur, hendin á mér titraði þegar ég var að farða mig því ég var eitthvað svo glöð í hjartanu. Fyrir mig eru það nefnilega litlu hlutirnir sem skipta máli.
Dagurinn sem ég málaði mig í fyrsta skipti 

Andlega hliðin
Eins og ég segi þá reyndi þetta mikið á andlegu hliðina og ein aukaverkunin er depurð. Það komu tímar sem mig langaði til þess að detta í vonleysi og var ekki viss um að ég myndi þrauka meðferðina út.
Á þessum tíma bjó ég ein og var mikið ein með sjálfum mér. Ég lokaði mig ef til vill svolítið af því að mér leið illa. Það kom fyrir að ég datt ég niður á kvöldin og fékk mér það nammi sem til var á heimilinu 
til þess að bæta líðanin. Þá skömmu stund var mér alveg sama þó svo að ég myndi þyngjast um tuttugu kíló á meðan ég væri á þessum lyfjum. 
Ég fékk þó fljótt samviskubit og varð smá sár út í sjálfa mig fyrir að hugsa svona, mér þykir miklu meira vænt um mig heldur en þetta og ég veit svo miklu betur. Ég má samt eiga það að ég reif mig alltaf strax aftur upp daginn eftir og leyfði mér ekki að draga mig lengra niður.

Það komu dagar sem mig langaði bara að vera undir sæng og sleppa því að takast á við daginn. En alla þessa níu mánuði fór ég alltaf á fætur og mætti á morgunæfingu og til vinnu. Ég þurfti bara að tækla daginn, setti brosið upp og kom mér í gír.


Æfingarnar björguðu mér Það sem hjálpaði mér líka gífurlega var það að mæta alla morgna á æfingar. Ég myndi í rauninni segja að það hafi bjargað mér andlega. Þannig byrjaði ég daginn vel og hafði ekki tíma til þess að vorkenna sjálfri mér, enda heldur lífið áfram og ég hugsaði alltaf um lokaútkomuna. 

Að vera jákvæð
Þrátt fyrir að hafa átt mín móment þá hafði ég það ávallt frammi fyrir mér að tækla þetta með jákvæðnina að vopni sem ég tel mjög mikilvægt. Ég reyndi að hafa húmor fyrir aukaverkununum sem ég fékk og ég og vinkonur mínar kölluð lyfið djöflatöflur til þess að hafa húmor fyrir þeim. 

Það sem mér fannst líka mjög hvetjandi var að á tímabilinu sem ég var á töflunum eignaðist ég mína fyrstu íbúð og átti afmæli en gat ekki haldið upp á hvorugt tilefnið. 
Í júní á seinasta ári bjó ég því til event um innflutnings-afmælis-gleðipartý sem að átti að eiga sér stað þremur mánuðum eftir meðferðina, sem sagt þann 19.desember. Þannig stelpurnar fengu alveg hálft ár til þess að staðfesta mætingu haha.. Þetta fannst mér mjög góð hvatning til þess að vita að það væru skemmtilegir tímar framundan.
Þetta kvöld var líka eitt besta kvöld sem ég hef upplifað og mér þótti svo vænt um að fá allar mínar bestustu til þess að fagna með mér. 


Eins og sjá má var mikil gleði þetta kvöldAð lokum
Ég ætla ekkert að skafa af því en þessi lyfjakúr er það erfiðasta sem ég hef gert!
Og ég sem hef til að mynda þyngt mig um 20 kg viljandi til þess að byggja upp vöðvamassa og köttað mig aftur niður á þremur mánuðum fyrir fitnesskeppni. Mér fannst það einmitt með því erfiðasta sem ég hafði gert áður en ég fór í gegnum þetta

EN ég myndi ALLAN daginn fara í gegnum þetta ferli aftur.. sama hvað. Í dag er ár síðan ég kláraði meðferðina og húðin mín hefur haldist mjög vel hingað til 7,9,13. Ég hef ekki fengið neinar bólur með bólgum eða slíkt, þó svo að ég hafi kannski fengið eina litla bólu sem er varla til þess að tala um. 


Eina sem er að angra mig eru ör eftir bólur og ör eftir að ég fiktaði í þeim með nöglunum. Ég var líka dugleg að fara í ljós á sínum tíma sem hefur ekki hjálpað, enda hætti ég því fyrir tveimur árum. Ég er mjög meðvituð um örin og þau sitja svolítið á sálinni en það góða er að það eru til meðferðir ti þess að vinna á slíkum örum. 

Yfir heildina er ég ótrúlega glöð í hjartanu að hafa látið slag standa og klárað þetta. Þetta voru mikil átök fyrir líkama og sál í bland við mikla sjálfskoðun. En ég kom bara bara út í plús þar sem ég lærði ótrúlega mikið á sjálfa mig.. er miklu sterkari og jákvæðari og í rauninni lærði að meta lífið miklu betur. Tala nú ekki það að vera orðin góð í húðinni eftir um sjö ára baráttu, það er ómetanlegt.
Ykkar einlæg.
Ale Sif 

1 ummæli: